Sterk staða Reykjanesbæjar
[Annað] - 02.04.2006 -

Sterk staða Reykjanesbæjar
Rekstarafgangur bæjarsjóðs og samstæðu langt fram úr áætlun
Þrátt fyrir mestu framkvæmdir í sögu Reykjanesbæjar er hagnaður ársins 2005 talinn í hundruðum milljónum króna á síðasti ári og er sérstök ástæða að fagna þeirri niðurstöðu.
Samkvæmt rekstrarreikningi Reykjanesbæjar fyrir árið 2005 er hagnaður samstæðu 384 milljónir króna eða á annað hundrað milljónum hærri en áætlun gerði ráð fyrir en umsnúningur frá fyrra ári er 595 milljónir króna. Þá er bæjarsjóður rekinn með rúmlega 87 milljóna króna hagnaði sem er átta sinnum hærra en áætlun sama árs gerði ráð fyrir. Ábendingar um mikla bjartsýni í áætlunargerð meirihlutans á síðasta ári voru því sannarlega óþarfar og í engum takti við raunveruleikann.
Fasteignaskattar lægstir í Reykjanesbæ
Á sama tíma og þessi frábæra niðurstaða er staðfest í ársreikningum Reykjanesbæjar berast fréttir um nýlega útreikninga frá ASÍ þar sem tekjur af fasteignasköttum á hvern íbúa eru lægstar í Reykjanesbæ samanborið við átta stærstu sveitarfélögin árin 2003-2006. Þetta þýðir að íbúar í Reykjanesbæ greiða lægri fasteignaskatta í krónum talið en samanburðarsveitarfélögin og svo verður áfram. Þá er Reykjanesbær í 1. til 3. sæti hvað varðar lægstan kostnað á hefðbundna fjölskyldugerð og stendur því vel að vígi í því sambandi.
Þá er lóðarverð hér með lægsta móti og aðeins lítið brot af því sem höfuðborgarbúar þurfa að greiða. Útsvarsprósenta sveitarfélagsins er aðeins 12,7% sem er vel undir meðallagi og lægri en hjá flestum sveitarfélögum sem við berum okkur jafnan saman við. Á sama tíma erum við eina sveitarfélagið sem bjóðum frítt í strætó fyrir alla bæjarbúa og frían aðgang í sund fyrir öll börn til 15 ára aldurs. Fjölgun sundlaugargesta hefur eðlilega margfaldast síðustu mánuði og er það vel. Líklegt er að sú fjölgun aukist enn meir þegar glæsileg innisundlaug og fjölskyldugarður opnar síðar í þessum mánuði en sú framkvæmd er ein af þeim fjölmörgu sem lokið er við á þessu kjörtímabili. Einnig eru skólamáltíðar í grunnskólum bæjarins niðurgreiddar af stórum hluta þannig að verð til nemanda er með allra lægsta móti ef ekki það lægsta hérlendis.
Í upphafi kjörtímabilsins voru fjárfestingar við endurgerð Hafnargötu að mestu teknar inn í rekstarreikning bæjarfélagsins og greiðslur vegna endurreiknings lífeyrirskuldbindinga sömuleiðis. Í dag eru lífeyrisskuldbindingar reiknaðar inn í áætlanir bæjarfélagsins og því minni hætta á að áætlanir raskist eða að vanmat gjalda til fjölda ára gefi ranga mynd af raunverulegri niðurstöðu ársreikninga. Þetta vinnulag skýrir að hluta til betri niðurstöðu en áætlanir gerðu ráð fyrir.
Rekstur sveitarfélaga á það sameiginlegt við rekstur fyrirtækja að stundum þarf að fjárfesta til að ná auknum tekjum. Sú meðvitaða ávörðun meirihlutans að leggja til aukið fjármagn í upphafi kjörtímabils til umhverfismála, uppbyggingar í atvinnumálum og með auknu framboði lóða er því þegar farin að skila þeim góða árangri sem við reiknuðum með á næstu árum.
Uppbygging síðustu ára og eiginfjárhlutfall
Öllum er ljóst að uppbygging síðustu ára hefur kostað mikla fjármuni enda hafa framkvæmdir á vegum bæjarfélagsins og einkaaðila aldrei verið meiri. Engu að síður er eiginfjárhlutfall okkar hjá bæjarsjóði Reykjanesbæjar hærra nú en í árslok 2002 eða rúmlega 42% í stað 40%. Þá er eiginfjárhlutfall samstæðunnar 29% en var í árslok 2002 tæplega 27%. Er þessi niðurstaða sérstaklega ánægjuleg í ljósi umræðu um að bæjarfélagið hafi selt allar sínar eignir og því eðlilegt að nú sé spurt hvar og hvernig sú fullyrðing hafði til orðið.
Hverjum þú treystir best til að ráðstafa skattpeningum þínum, auka atvinnutækifæri og móta samfélagið til framtíðar er þitt að ákveða. Sú ákvörðun skiptir miklu máli. Við Sjálfstæðismenn erum reiðubúnir að vinna áfram á sömu braut, okkar samfélagi til framdráttar.
Steinþór Jónsson, frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ.
Til baka
|